Húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar var lögð fram til umræðu og samþykktar í bæjarstjórn í vikunni.
Hlutverk húsnæðisáætlana er að draga fram mynd af stöðu húsnæðismála í sveitarfélögum, greina framboð og eftirspurn og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf til lengri og skemmri tíma. Megin markmiðið er að stuðla að auknu húsnæðisöryggi.
Markmið Akureyrarbæjar varðandi skipulagningu nýrra hverfa er að tryggja að í þeim séu ávallt til úthlutunar lóðir fyrir helstu gerðir húsa, þ.e. einbýlishús, raðhús, parhús og fjölbýlishús, og er stefnt að því að hlutfall af hverri húsagerð tryggi fjölbreytni og endurspegli eftirspurn. Leigu- og búseturéttaríbúðum sem rekin eru af neytendafélögum án hagnaðarkröfu er gefinn skilgreindur forgangur. Stefnt er að því að sem flestir geti stundað atvinnu og iðju sína innan göngu- og hjólreiðafjarlægðar og við endurskipulagningu skal leita að kostum til þéttingar byggðar.
Í nýrri húsnæðisáætlun bæjarins er meðal annars fjallað um þörf fyrir mismunandi búsetuform til ársins 2031 og þörf á tiltekinni grunnþjónustu, svo sem skóla og heilbrigðisþjónustu, m.t.t. íbúaþróunar. Einnig er ljósi varpað á áætlanir um skipulag lóða og svæða til næstu ára og stöðu þeirra í skipulagsferlinu.
Smelltu hér til að skoða húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar.